Innlent

Fór inn á sjúkraskrár sjúklinga

Matthías Halldórsson Embætti landlæknis rannsakaði málið.
Matthías Halldórsson Embætti landlæknis rannsakaði málið.

Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Blönduóss hefur orðið uppvís að því að fara inn á sjúkraskrár fólks sem leitað hefur til lækna stofnunarinnar. Þetta staðfestir Matthías Halldórsson landlæknir.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins hafði forstjórinn aðgang að sjúkraskrám heilbrigðisstofnunarinnar af því að hann sá um tölvumál hennar og stofnaði meðal annars aðgang fyrir nýja starfsmenn og setti inn lykilorð þeirra.

„Forstjórar eru ekki heilbrigðismenntaðir og eiga ekki að hafa aðgang inn í sjúkraskrárnar,“ útskýrir landlæknir. Persónuvernd barst kvörtun um óheftan aðgang forstjórans. Hún vísaði málinu til landlæknisembættisins þar sem fram fór rannsókn á því. Hún leiddi í ljós að forstjórinn hafði farið inn á sjúkraskrár í allnokkrum tilvikum.

Landlæknisembættið hefur komist að niðurstöðu í málinu, sem verður ekki greint frá að sinni. Verður hún send heilbrigðisráðuneytinu eftir helgi, því forstjórar heilbrigðisstofnana heyra undir ráðuneytið.

Fréttablaðið leitaði skýringa á þessu atferli forstjórans hjá honum síðdegis í gær. Hann sagðist ekki vilja tjá sig um málið því hann væri kominn í helgarfrí.

Brot gegn lögum um sjúkraskrár varða sektum eða fangelsi allt að þremur árum.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×