Innlent

Sagan endalausa

Fangelsismál í landinu eru í ólestri sökum fjárskorts og plássleysis. Á annan tug nefnda og starfshópa hafa unnið að úrlausn í nær fimmtíu ár. Nýtt fangelsi er enn óbyggt.

Á annan tug nefnda og starfshópa hafa verið skipuð síðastliðin fimmtíu ár til að vinna að byggingu nýs fangelsis á höfuðborgarsvæðinu. Þessir vinnuhópar eru allt að fjórtán talsins. Fangelsið er enn ekki risið og raunar hefur öllum hugmyndum um það verið sópað út af borðinu.

Hins vegar leitar Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra nú allra leiða til að fjölga afplánunarplássum fyrir dæmda brotamenn. Meðal annars er í athugun að leigja húsnæði undir slík pláss.

Fréttablaðið hefur að undanförnu fjallað um óviðunandi stöðu fangelsismála hér á landi. Um 240 dæmdir brotamenn eru á boðunarlista til afplánunar. Fangelsin eru troðfull, svo tvísetja þarf í klefa í sumum tilvikum. Ekki líður svo vika að ekki séu einhverjir, jafnvel heilu hóparnir úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna afbrota.

„Þetta er orðin býsna löng saga hvað varðar byggingu fangelsis í Reykjavík, eiginlega sagan endalausa," segir Guðmundur Gíslason, forstöðumaður fangelsisins í Kópavogi, Hegningarhússins og fangelsisins á Akureyri. „Það hafa allnokkrar nefndir verið að vinna að byggingarmálinu í gegnum tíðina, en sagan nær allar götur aftur til 1960, þegar reisa átti fangelsi við Korpúlfsstaði. Það var teiknað upp, en síðan kom hlé og byggingin leit aldrei dagsins ljós."

Nokkrum árum síðar var Síðumúlafangelsið tekið í notkun. Það gegndi hlutverki gæsluvarðhaldsfangelsis fyrir lögregluna og var í fullum rekstri til ársins 1996.

Næsta tilraun til fangelsisbyggingar var í kringum 1975, þegar ákveðið var að stefna að byggingu fangelsis við Tunguháls 6.

„Botnplata byggingarinnar var steypt á áttunda áratugnum," rifjar Guðmundur upp. „Hins vegar var aldrei byggt ofan á hana þannig að hún varð ónýt með tímanum. Svo var einfaldlega mokað yfir hana. Síðan þá hafa nefndir og hópar verið að störfum við að reyna að skipuleggja þetta.

Ein nefndin skilaði mjög ákveðnum tillögum um nýja fangelsisbyggingu í Reykjavík 1992. Hún lagði eindregið til að fangelsi yrði reist í Reykjavík, en Litla-Hraun yrði fyrst og fremst fyrir langtímafanga sem annaðhvort væru í námi eða vinnu í fangelsinu. Þáverandi dómsmálaráðherra tók annan kost og lét stækka Litla-Hraun. Þegar Síðumúlafangelsið var lagt niður var gæsluvarðhaldið fært austur, sem var ekki mjög skynsamlegt að ég tel.

Lögreglan tekur áreiðanlega undir það núna í þeim mannahalds- og fjárhagsörðugleikum sem þar er við að stríða, að það er ekki gæfulegt að þurfa að setja mannskap, bíla og fjármuni í að flytja gæsluvarðhaldsfanga, kannski mörgum sinnum í viku, milli Litla-Hrauns og Reykja­víkur vegna yfirheyrslna, fyrir dómara eða í öðrum erindum, á sama tíma og kvartað er undan því að lögreglan geti ekki sinnt brýnni þjónustu vegna öryggis borgaranna."

Um 2001 var farið að vinna að því að reisa nýtt fangelsi á Hólmsheiði. Ágreiningur varð um hvernig fangelsið ætti að vera, auk þess sem upp kom sterk umræða um að reisa flugvöll á heiðinni. Ekki varð neitt út neinu.

„Byggingamálin í Reykjavík eru í ólestri," segir Guðmundur. „Nóg hefur verið um starfshópa og tillögur, en fjármagn hefur enn ekki fengist."







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×