Erlent

Fékk armband bróður síns 65 árum síðar

Helen Glenn fékk armband bróður síns 65 árum eftir dauða hans.
Helen Glenn fékk armband bróður síns 65 árum eftir dauða hans.

Bandaríski orrustuflugmaðurinn, Jack Harold Glenn, var skotinn niður árið 1944 þegar hann var á flugi yfir Þýskalandi. Þeir sem sáu flugslysið og komu að báru líkama hans á akur þar sem hann var jarðaður. Meðal þeirra sem aðstoðuðu við greftrunina var 16 ára gamall þýskur piltur. Hann tók silfrað armband flugmannsins og geymdi það til minja.

Nú, 65 árum síðar, hefur systir hans fengið það í hendurnar.

Það var hinn níræði Bernerd Harding, sem sjálfur barðist í stríðinu, sem rakst á armbandið í smábænum Klein Quenstedt. Sjálfur ætlaði hann að kanna hvort leifar af flugvél sem hann brotlenti nálægt bænum, væru þar enn. Hann fann ekki flugvélina en hitti þjóðverjann Heinz Kruse.

Þegar Kruse var sextán ára gamall hafði hann tekið armbandið og sýnt þýskum herforingja það. Herforinginn skrifaði niður nafn Glenns á miða og rétti honum ásamt armbandinu. Hann sagði honum að geyma armbandið til minja.

Kruse gerði það næstu 65 árin. Það var ekki fyrr en hann sá Harding sem honum datt í hug að hann gæti komið armbandinu til skila. Harding sagðist reyna og úr varð að hann fann systur Glenns sem býr í Alaska.

Systir Glenns segist ætla að senda armbandið til Texas á safn svo fólk geti heyrt söguna um bróðir hennar og armbandinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×