Innlent

Um þriðjungur til í greiðsluverkfall

Tæplega níutíu prósent þjóðarinnar væru reiðubúin að taka þátt í að þrýsta á stjórnvöld um aðgerðir í þágu heimilanna, samkvæmt nýrri Capacent könnun. Aðeins um þriðjungur er hins vegar til í að taka þátt í hópaðgerðum og fara í tímabundið greiðsluverkfall.

Capacent Gallup gerði könnun fyrir Hagsmunasamtök heimilanna síðla í ágúst og byrjun september, en niðurstöðurnar voru birtar í gær. Samkvæmt þeim er meirihluti landsmanna í verulegum fjárhagsþrengingum, rúmlega 37 prósent svarenda segja enda ná saman með naumindum, rúm 10 prósent segjast ganga á sparifé sitt til að ná endum saman, rúm 5 prósent segjast safna skuldum og rúm tvö prósent eru gjaldþrota eða stefna í gjaldþrot. Samanlagt gera þetta um 55 prósent af þeim sem svöruðu, en Arney Einarsdóttir, stjónarkona í Hagsmunasamtökum heimilanna, segir að á bak við þær hlutfallstölur séu um hundrað þúsund manns.

Það kemur því ef til vill ekki á óvart að rúm 87 prósent svarenda segjast tilbúin til að taka þátt í að þrýsta á stjórnvöld um aðgerðir í þágu heimilanna. Það felur þó ekki í sér hópmálsókn gegn ríkinu, því minnihluti - eða tæp 37 prósent - væri til í slíkar aðgerðir. Dæmið snýst hins vegar við þegar kemur að fjármálafyrirtækjum, en 56 prósent eru reiðubúin til að taka þátt í hópmálsókn gagnvart þeim.

Niðurstöðurnar sýna einnig að um fjörtíu prósent eru til í að taka lausafjármuni sína úr ríkisbönkunum, en aðeins þriðjungur er hlynntur því að taka þátt í hópaðgerðum með því að fara í tímabundið greiðsluverkfall og greiða ekki af lánum í nokkra daga.

Þá er yfirgnæfandi meirihluti - 75 til 80 prósent - hlynntur hugmyndum um afnám verðtryggingar og sömu sögu er að segja um almennar niðurfærslur á höfuðstóli verð- og gengistryggðra lána. En þrátt fyrir erfitt árferði segja tæp níutíu prósent ólíklegt að þau flytji úr landi á næstunni.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×