Viðskipti innlent

Íslenskir bankamenn fá „Nóbel“

Þeir Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson voru á meðal þeirra sem hlotnaðist heiðurinn í Harvard.
Þeir Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson voru á meðal þeirra sem hlotnaðist heiðurinn í Harvard.

Fyrrverandi stjórnendur íslensku bankanna og Seðlabankans fengu í gær Ig Nóbelinn í hagfræði en verðlaunin voru veitt við Harvard háskólann í Bandaríkunum.

Verðlaunin eru veitt af ritstjórum gríntímarits sem gefið er út við skólann og eiga verðlaunin að fá fólk til að hlæja fyrst og hugsa svo. Verðlaun eru veitt í tíu flokkum og hlotnaðist Íslendingunum heiðurinn fyrir frábæra frammistöðu á árinu en þeir eru sagðir hafa sýnt fram á litlir bankar geti vaxið gríðarlega hratt á skömmum tíma og minnkað jafn hratt aftur.

Þeir fá ennfremur viðurkenningu fyrir að sýna fram á að hið sama gildi um hagkerfi heils lands. Á meðal annara vinningshafa má nefna seðlabankastjórann í Zimbabve sem fékk verðlaun í stærðfræði og tvo mexíkóska efnafræðinga sem segjast hafa búið til demanta úr þjóðardrykknum Tekíla.

Verðlaunin í bókmenntafræði féllu síðan í skaut Írsku lögreglunnar en afrek hennar hafa áður ratað í fréttir hér á Bylgjunni. Það var þegar írskar umferðarlögreglur sektuðu mann að nafni Prawo Jazdy alls 50 sinnum á svo skömmum tíma að athygli vakti. Þegar nánar var að gáð kom í ljós að Prawo Jazdy þýðir einfaldlega ökuskírteini á pólsku.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×