Innlent

Drekaútboði fram haldið eftir áramót

Bandaríska fyrirtækið ION GX Technology hefur afþakkað leyfi sem það fékk í sumar til leitar að olíu og gasi á Drekasvæðinu. Ríkisstjórnin hyggst þó ekki leggja árar í bát heldur stefnir að því að opna á ný fyrir umsóknir um sérleyfi til olíuvinnslu strax upp úr áramótum.

Bandaríska fyrirtækið hugðist senda sérhæft skip til hljóðbylgjumælinga á Drekasvæðinu í því skyni að selja rannsóknargögnin til olíufélaga. Leyfið var veitt í byrjun sumars og gilti út þetta ár og var því aðeins tímabundið rannsóknarleyfi en ekki sérleyfi til olíuvinnslu, eins og þau sem boðin voru út í byrjun árs. Ákvörðun fyrirtæksins er engu að síður enn eitt áfallið fyrir olíudrauma Íslendinga en samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun tengist hún því að umsækjendurnir tveir um sérleyfi, Aker Exploration og Sagex og Lindir, hættu báðir við.

Íslensk stjórnvöld eru þó ekki á því að gefast upp og móta nú næstu skref í olíumálum. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra kynnti innan ríkisstjórnar í síðustu viku þá tillögu Orkustofnunar að olíuleitarútboðið frá því í vor verði opnað á ný fljótlega eftir áramót. Ekki verði neinn útboðsfrestur, eins og síðast, heldur verði fimm sérleyfi höfð í boði í sjö mánuði, frá 15. febrúar til 15. september, þannig að fyrstur kemur fyrstur fær. Þau olíufélög sem fyrst gefi sig fram geti þannig valið þá reiti á Drekanum sem þau telja vænlegasta. Þar sem slík opnun telst hluti af upphaflega útboðinu verður umdeildum skattareglum ekki breytt.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×