Innlent

Meira hrun náist ekki niðurstaða í Icesave-málinu

Heimir Már Pétursson. skrifar

Enn meira hrun verður í efnahagsmálum Íslendinga náist ekki niðurstaða í Icesave deilunni og ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lýkur ekki endurskoðun sinni á efnahagsáætlun landsins á næstu dögum, að mati sérfræðinga Seðlabankans og efnahags- og viðskiptaráðuneytisins.

Fjármálaráðherrann, Steingrímur J. Sigfússon, segir bið eftir lausn mála ekki mega verða lengri en nokkra daga eða vikur.

Forsætisráðherra óskaði á mánudag eftir mati Seðlabankans annars vegar og efnahags- og viðskiptaráðuneytisins hins vegar á því hvaða afleiðingar það hefði ef enn freakri dráttur yrði á endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun Íslands og niðurstöðu í Icesave deilunni.

Sérfræðingar Seðlabanks segja þetta þýða að töf verði á afnámi gjaldeyrishafta, lánshæfismat ríkisins lækki í flokk ótryggðra fjárfestinga, líkur aukist á hækkun vaxta, þrýstingur verði á gengislækkun og þar með aukningu verðbólgu, töf verði á endurreisn atvinnulífsins og atvinnuleysi aukist ef enn frekari tafir verði á endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Fjármálaráðherra segir þreifingar enn í gangi við Breta og Hollendinga.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið segir töf á Icesavesamningum hafa alvarlegar afleiðingar fyrir Tryggingasjóð innstæðueigenda sem verði að greiða innstæðueigendum út tryggingar sínar eftir hálfan mánuð, en frestur til þess rennur út 23. október. Sjóðurinn er langt frá því að eiga fyrir skuldbindingum. Ef þetta gerist rýrni traust á Íslandi enn frekar og lánshæfismat lækki, sem geti gert endurfjármögnun lána ríkis og sveitarfélaga og t.d.

Íbúðalánasjóðs enn dýrari og jafnvel ómögulega. Fjármálaráðherra vonar að fljótlega verði lagt fram frumvarp um Icesave sem sátt takist um.

Fjármálaráðherra segir þjóðfélagið ekki þola meiri bið eftir niðurstöðu í þessum efnum.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×