Innlent

Vilja ekki olíuskip á hafíssvæðum

Landhelgisgæslan hefur óskað eftir því að olíuskip sem sigla frá Rússlandi til Bandaríkjanna, sigli ekki milli Íslands og Grænlands, vegna hafíss. Drekkhlaðið olíuskip fór vestur fyrir landið í vitlausu veðri á dögunum, en lét ekki vita um ferðir sínar.

Eftirlitsflugvél gæslunnar kom auga á ísjaka út af vestfjörðum í vikunni; þeir voru næstir sjötíu og sjö sjómílur frá landi. Gæslan segir á vefsiðu sinni, að jakar sem skip hafi komið auga á undan Vestfjörðum hafi ekki komið fram á gervitunglamyndum, en geti engu að síður verið hættulegir skipum, þar sem einungis einn tíundi þeirra sé ofansjávar.

Fáir dagar eru síðan Gæslan frétti af tveimur olíuskipum í efnahagslögsögunni, með óvenju stóran farm af hráolíu; eða tvisvar sinnum stærri en venjulega tíðkast. Skipin voru á leið frá Rússlandi til Bandaríkjanna. Annað þeirra valdi að sigla vestur fyrir land, í afleitu veðri, þar sem hætta var á hafís.

Hvorugt skipið sá ástæðu til að tilkynna um ferðir sínar til vaktstöðvar siglinga. Í kjölfar þessa var óskað eftir því við siglingaumferðarmiðstöðina í Vardö í Noregi, að olíuskip færu ekki vestur fyrir og sendu auk þess tímanlega upplýsingar um siglingu inn í íslenska lögsögu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×