Innlent

Óvissa um Helguvík bregðist lán til OR

Frá Helguvík
Frá Helguvík

Áætlanir Orkuveitu Reykjavíkur (OR) um virkjanaframkvæmdir eru í uppnámi, fáist ekki þrjátíu milljarða króna lán frá Evrópska fjárfestingarbankanum (EIB) sem vilyrði er fyrir. Afgreiðslu lánsins var hafnað í júlí vegna óstöðugleika í efnahagslífinu.

Hjörleifur Kvaran, forstjóri OR, segir aðeins dagaspursmál hvenær EIB svari því hvort fyrirtækinu verði veitt lánið sem vilyrði var gefið fyrir á sínum tíma. Tvennt sé í spilunum. Fáist lánið verði gengið í að klára Hellisheiðarvirkjun en öfugt við áætlanir verði ekki ráðist í Hverahlíðar­virkjun fyrr en fjármögnun þess verkefnisins sé að fullu lokið. Fáist lánið hins vegar ekki muni það valda því að fjármögnun annars staðar frá verði erfið, sem skapi óvissu um framhaldið. „Við eigum því mikið undir því að fá þessa fyrirgreiðslu," segir Hjörleifur.

Á meðan beðið er svars frá EIB fundar sendinefnd í Japan um afhendingu á vélasamstæðum sem setja á niður í fyrrnefndum virkjunum, en fjármögnun þeirra tengist láninu frá EIB. Hugsanlega verður hætt við móttöku þeirra, sem þýðir fjárútlát og miklar tafir fyrir OR.

„Orkuveitan skiptir miklu máli í Helguvíkurverkefninu en fjármögnunarmálin eru í óvissu. Þetta er keðja stórra verkefna sem byggja hvert á öðru," segir Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóri iðnaðarráðuneytisins. Á fundi Samtaka atvinnulífsins um framkvæmdir í ljósi stöðugleikasáttmálans gerði Kristján grein fyrir stöðu stórra verkefna sem líkleg eru til að hafa áhrif á hagvöxt og atvinnu á næsta ári. Sagði hann að Orkuveitunni hefði gengið erfiðlega í samningaviðræðum við EIB. Eins og mál stæðu ríkti því nokkur óvissa um Helguvíkurverkefnið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×