Erlent

Það var ekki Guð

Óli Tynes skrifar

Í fyrstu Mósebók segir; Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. Prófessor Ellen van Wolde er virtur sérfræðingur í Gamla testamentinu og hefur skrifað margar fræðibækur um trúmál.

Hún segist hafa gert nýja textagreiningu á bókinni miklu og komist að þeirri niðurstöðu að fyrrgreind setning hafi verið ranglega þýdd úr hebresku.

Hebreska sögnin bara- b-a-r-a þýði þarna að aðskilja en ekki að skapa. Höfundar Biblíunnar hafi aldrei ætlað sér að halda því fram að Guð hefði skapað heiminn. Jörðin hafi til dæmis þegar verið á sínum stað þegar hann skapaði mennina og dýrin.

Fyrsta setningin í Mósebók eigi því að vera svona; Í upphafi aðskildi Guð himin og jörð.

Van Wolde segir að rannsókn hennar sýni að upphaf Biblíunnar sé ekki upphaf tímans heldur byrjunin á frásögn.

Þar sé sagt að Guð hafi skapað mennina og dýrin en ekki jörðina sjálfa.

Van Wolde kveðst vonast eftir snarpri umræðu um þessi mál þar sem kenningar hennar séu ekki aðeins nýjar af nálinni heldur snerti eflaust hjörtu trúaðra.

Hún segir að þetta hafi snert sitt eigið hjarta þar sem hún sé trúuð og hafi alla sína ævi trúað á og treyst Guði.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×