Erlent

Heimsendir líklega ekki 2012

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Píramídi maja í Mexíkó.
Píramídi maja í Mexíkó.

Heimsendir verður að öllum líkindum ekki í desember 2012 þrátt fyrir spár fólks sem legið hefur í fornum dagatölum maja-indíána.

Fréttastofan greindi frá því á dögunum að fullkominn óþarfi væri sennilega að kaupa jólagjafir fyrir jólin 2012 þar sem líkur væru á því að heimsendir yrði 21. desember það ár. Nú er hins vegar komið í ljós að vissara er að kaupa gjafirnar eftir allt saman.

Það var hin svokallaða langa talning, fornt dagatal maja-indíana, sem gaf vísbendingu um að heimsendir yrði þennan dag, einfaldlega vegna þess að dagatalið náði ekki lengra. Maja-indíáninn Apolinaro Chile Pixtun frá Guatemala hefur nú stigið fram og leiðrétt þennan misskilning í eitt skipti fyrir öll. Pixtun segist hundleiður á því að bera þessa vitleysu til baka en spurningum um dómsdag rigni yfir hann og aðra maja-indíána.

Sannleikurinn sé ósköp einfaldur, þeir sem gerðu dagatalið á 6. öld fyrir Krists burð vissu einfaldlega að á 25.800 ára fresti lentu jörðin, sólin og miðja vetrarbrautarinnar í beinni línu. Það myndi gerast þennan dag árið 2012 og því upplagt að láta dagatalinu lokið á þeim tímapunkti, segir Pixtun pirraður og frábiður sér meira rugl frá nýaldarsinnum, sjálfskipuðum Nostradamusar-spekingum og fólki sem hefur horft of mikið á History Channel-sjónvarpsstöðina.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×