Innlent

Bjarni á erfitt með að gleðjast yfir góðum fréttum

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins spurði fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi fyrir stundu hvaða þýðingu það hefði að nú sé talið að um 90% fáist upp í Icesaveskuldbindingarnar. Hann sagði ljóst að meginþorri þeirra skuldbindinga sem við værum að fara að taka á okkur væri vegna vaxtakostnaðar.

Fjármálaráðherra sagðist gera ráð ráð fyrir því að Bjarni myndi gleðjast yfir því að að ríkið sæti nú uppi með minni fjárbindingu en upphaflega var gert ráð fyrir.

„Að sjálfsögðu skiptir það máli að sem minnst standi eftir af höfuðstólnum vegna þess að sú aðferð var valin í vetur að láta eignirnar borga niður lánið og láta ríkið ábyrgjast það sem útaf stæði," sagði fjármálaráðherra.

Bjarni spurði einnig hversvegna uppgjörið á milli gömlu og nýju bankanna væri í erlendri mynt. Fjármálaráðherra svaraði því til að það hafi verið talið þjóna best hagsmunum beggja aðila og drægi þannig úr gjaldeyrisáhættu. Bjarni sagði athyglisvert að menn teldu enn vera svigrúm fyrir erlenda lántöku.

Steingrímur sagðist hafa það á tilfinningunni að þingmaðurinn ætti erfitt með að gleðjast yfir góðum fréttum. Hann sagði það hljóta að vera gleðiefni að nú væri eignasafnið metið 90 milljörðum verðmætara en talið var snemmsumars.

„Menn hljóta að gleðjast yfir því að málin séu að þróast frekar í þessa átt en hina," sagði Steingrímur. Hann sagði einnig að með þessu gæti menn greitt hraðar inn á Icesavelánin og þar með minnkað vaxtakostnaðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×