Innlent

Tíu prestar taka upp hanskann fyrir sr. Gunnar

Ingimar Karl Helgason skrifar
Tíu prestar, þar á meðal sóknarprestur fjölmennustu sóknar landsins, skrifa Biskupi bréf, til varnar séra Gunnari Björnssyni. Þeir telja að hættulegt fordæmi geti skapast, verði séra Gunnar færður til í starfi, vegna siðferðsbrots gegn ungum sóknarbörnum.

Viðurkennt var fyrir dómi að séra Gunnar Björnsson, hefði kysst, strokið og leitað sér huggunar hjá barnungum stúlkum í Selfosssókn. Hann var sýknaður af ákæru um kynferðisbrot, en úrskurðarnefnd Kirkjunnar telur ótvírætt að Gunnar hafi brotið gegn siðareglum presta; þetta hafi verið siðferðisbrot.

Séra Gunnar hefur verið í leyfi frá Selfossókn í næstum tvö ár, og málið hefur valdið deilum í sókninni. Sóknarnefndin er þó einhuga um að hann verði að víkja.

Prestastefna fól Biskupi að leysa málið. Hann vill setja Gunnar í embætti sérþjónustuprests við Biskupsstofu; starfi sem hann geti þess vegna sinnt að heima. Þetta fellst séra Gunnar ekki á og vill brauðið til baka. Hann auglýsir fund í kvöld, þar sem stuðningsmenn hans eiga að koma saman.

Tíu þeirra, úr prestastétt, hafa skrifað biskupi. Þeir segja meðal annars að þar sem Gunnar hafi verið sýknaður, eigi hann að taka við fyrri störfum. Fari ekki svo, skapist alvarlegt fordæmi sem geti orðið hættulegt öllum starfsmönnum þjóðkirkjunnar; ef ekki gildi hefðbundnar reglur samfélagsins sé nóg að kæra mann, sem hafi ekki þau mannréttindi að hægt sé að sýkna. Þá setji umræðan um séra Gunnar trúverðugleika kirkjunnar í mikinn háska. Og svo bæta prestarnir við að þeir sem hafi úrskurðað um siðferðisbrot séra Gunnars, hafi engar heimildir til þess.

Undir þetta bréf skrifa meðal annars Vigfús Þór Árnason, sóknarprestur í fjölmennustu sókn landsins; þar fermast um 300 börn árlega; Valgeir Ástráðsson í Seljakirkju, Þórir Stephensen, fyrrverandi dómkirkjuprestur, og Auður Eir Vilhjálmsdóttir, fyrsta konan sem hlaut prestvígslu hér á landi.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×