Innlent

Íslendingar bera pólitíska ábyrgð í málum flóttamannanna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það skiptir máli að stjórnvöld skoði út frá pólitískum forsendum af hvaða ástæðum fólki er vísað út úr landi, segir Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG. Eins og kunnugt er hefur fjórum flóttamönnum frá Afganistan og Írak verið vísað frá landinu. Sá fimmti er í felum af ótta við að honum verði jafnframt vísað á brott.

Stefán Pálsson, áhrifamaður innan Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, gagnrýndi dómsmálaráðherra harðlega vegna máls flóttamannanna á bloggi sínu í gær og segir daga hennar í embætti senn talda. Katrín segir hins vegar að ágætis ánægja ríki með störf dómsmálaráðherra. Á síðasta ríkisstjórnarfundi hafi verið samþykkt tillaga hennar um að stjórnarflokkarnir skipuðu fjögurra manna hóp til þess að fara yfir það hvernig framkvæmd í málefnum flóttamanna væri háttað og hvað þyrfti að bæta.

„Fólk hefur fengið leyfi til að vera hér út frá mannúðarsjónarmiðum. Sú breyting sem hefur orðið í tíð þessarar ríkisstjórnar er að forsendur eru metnar út frá tilfelli hvers og eins og það er bara spurning hvaða breytur eru teknar þar inn í. Að mínu mati mætti skoða það hvaðan þetta fólk er að koma og hvaða ábyrgð við berum gagnvart þessum löndum sem þeir eru að koma frá, Írak og Afganistan," segir Katrín. Hún segir að Íslendingar beri ákveðna pólitíska ábyrgð eftir þann hernað sem hefur verið í þessum löndum.

Katrín segir að dómsmálaráðherra vinni eftir þeirri stefnu sem ríkisstjórnarflokkarnir marki. Það sé þeirra verkefni að koma stefnunni rétt á framfæri. Þá segir Katrín jafnframt að verið sé að skoða sérstaklega málefni tveggja þeirra flóttamanna sem sendir voru á brott.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×