Innlent

Séra Gunnari boðnar milljónir fyrir að hætta

Séra Gunnar Björnsson íhugar nú rúmlega fimmtán milljóna króna starfslokasamning sem biskup Íslands bauð honum. Samningurinn er til tæplega þriggja ára og felur í sér að Sr. Gunnar þyrfti að hætta preststörfum við undirritun.

Séra Gunnar Björnsson var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn tveimur stúlkum úr söfnuði sínum á Selfossi. Málið fór fyrir héraðsdóm og Hæstarétt þar sem hann var sýknaður. Gunnar hefur undanfarin tvö ár verið í leyfi frá störfum vegna málsins.

Í bréfi sem fréttastofa hefur undir höndum frá biskupi til Gunnars þann 15. október sl. kemur fram að biskup hafi boðið honum fjóra kosti. Í fyrsta lagi starfslokasamning. Hann fengi þá laun út skipunartímann sem rennur út árið 2012. Heildarupphæðin er því 15,5 milljónir króna þar sem Gunnar er með um hálfa milljón í grunnlaun á mánuði. Auk þess fengi hann greiddan áfallinn lögmannskostnað. Tæki hann þessu boði yrði hann að hætta preststörfum um leið.

Þá var Gunnari einnig gefinn kostur á að fara í leyfi, taka við prestakallinu í stuttan tíma en segja því lausu samhliða eða verða fluttur til í starfi. Þessum kostum hafnaði Sr. Gunnar og í kjölfarið tilkynnti biskup að til stæði að færa hann til í starfi. Hann myndi gegna embætti sérþjónustuprests á Biskupsstofu og væri frjálst að sinna því starfi frá heimili sínu. Gunnar mótmælti þessu og sagðist meðal annars ætla að sækja mál sitt fyrir dómstólum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu standa hinir kostirnir Sr. Gunnari enn til boða þrátt fyrir að hann hafi hafnað þeim og mun hann nú vera að skoða stöðu sína, meðal annars með starfslokasamning í huga. Gunnar vildi ekki tjá sig um málið við fréttastofu.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×