Viðskipti innlent

Ætla ekki að innheimta ofurlán hjá börnum

Dæmi eru um að Glitnir hafi veitt börnum há lán til stofnfjárkaupa í Byr sparisjóði. Tólf ára barn fékk slíkt lán upp á sex milljónir króna. Tugir stofnfjáreigenda undirbýr málsókn á hendur Íslandsbanka vegna lánanna.

Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag. Glitnir fjármagnaði 30 milljarða stofnfjáraukningu í Byr haustið 2007. Í blaðinu segir að Íslandsbanki hafi yfirtekið lánin eftir að Glitnir féll og því snúi undirbúningur málsóknarinnar að Íslandsbanka. Öll lánin hafa hækkað mikið á meðan eignin hefur rýrnað til muna, en óvissa er um verðmæti stofnfjárbréfanna. Stofnfjáreigendur telja að Glitnir hafi lofað að ekkert annað en stofnfjárbréf og arðgreiðslur af þeim hafi legið að baki sem trygging fyrir lánunum. Málshöfðunin snýst um hvort aðrar eignir en stofnféð sjálft hafi legið sem veð að baki lánunum.

Viðskiptablaðið segir að í nokkrum tilfellum sé um að ræða lánveitingu til barna. Samþykkt var í nokkur skipti af sýslumanninum í Hafnarfirði að börn gætu verið eigendur stofnfjár í Byr, og var lánað til barnanna á þeim grundvelli.

Már Másson, yfirmaður samskiptasviðs Íslandsbanka, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að í öllum tilvikum hafi foreldrar eða forráðamenn umræddra barna átt frumkvæði að lántökunni og komið fram fyrir hönd þeirra gagnvart Glitni. Frá stofnun Íslandsbanka hafi umræddar lánveitingar Glitnis verið til skoðunar. Við þá athugun hafi komið í ljós að ekki lá fyrir samþykki yfirlögráðanda, þ.e.a.s. sýslumanns, til lántöku hinna ófjárráða barna. Þar sem samþykki yfirlögráðanda skortir teljast umræddir lánsamningar ógildir og muni Íslandsbanki því ekki innheimta skuldina hjá viðkomandi lántökum.

Íslandsbanki harmi málið í alla staði.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×