Innlent

Lögreglan hafði afskipti af slagsmálum í Keiluhöllinni

Keiluhöllin í Öskjuhlíð.
Keiluhöllin í Öskjuhlíð.
Lögreglan var kölluð að Keiluhöllinni í Öskjuhlíð um klukkan hálf eitt í nótt vegna slagsmála innan dyra. Að sögn varðstjóra var lítið bókað um atvikið en faðir stúlku sem varð fyrir árás segist undrandi á viðbrögðum starfsfólks Keiluhallarinnar. Dóttir hans hlaut áverka eftir að hópur fólks réðst að henni og félögum hennar.

Stúlkan sem er um tvítugt var að spila keilu ásamt þremur vinum sínum í gærkvöldi. Á næstu braut var hópur fólks sem lét ófriðsamlega að sögn föðurins. Var fólkið augljóslega undir áhrifum áfengis og var að grýta keilukúlum og hlaupa yfir brautir annarra að hans sögn.

Dóttirin og vinir hennar voru bláedrú og ætluðu að skemmta sér, en það varð ekki niðurstaðan. Eftir um hálftíma kvartaði dóttirin við stúlku í afgreiðslunni sem bað fólkið um að haga sér annars yrði það rekið út.

Skömmu síðar var ráðist að dótturinni og vinum hennar en þau voru hrakin út í horn. Faðirinn segir að enginn hafi gert neitt á meðan gengið var í skrokk á þeim og ekki hafi verið hringt á lögregluna fyrr en eftir um hálftíma. Lögreglan kom loks á vettvang og fjarlægði árásarmennina.

Faðirinn segir að áverkar hafi sést á flestum og er talið að einn úr hópnum sé jafnvel nefbrotinn. Faðirinn er ósáttur með viðbrögð starfsfólksins en enginn virtist skipta sér af látunum að einum strák sem var að vinna á barnum undanskildum.

Þau ætla ekki að kæra árásina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×