Innlent

Þrír af fimm framkvæmdastjórum yfirgefa Seltjarnarnesbæ

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Seltjarnarnes. Mynd/ Valli.
Seltjarnarnes. Mynd/ Valli.
Tveir framkvæmdastjórar af fimm hjá Seltjarnarnesbæ hyggjast segja upp störfum og einn sagði upp störfum í morgun. Ástæðan er sögð vera óánægja með breytingar sem hafa orðið í stjórnsýslu bæjarins eftir að Ásgerður Halldórsdóttir tók við stöðu bæjarstjóra fyrr á árinu.

Samkvæmt heimildum Vísis hefur einn framkvæmdastóranna, Ólafur Melsteð, framkvæmdastjóri Tækni- og umhverfissviðs, deilt við bæjarstjórann vegna áminningar sem hún veitti honum. Hefur Ólafur sent bæjarstjórninni og bæjarstjóra bréf vegna málsins og óskað skýringa á áminningunni. Þá hefur hann jafnframt falið lögfræðingum að skoða málið, samkvæmt heimildum Vísis.

Birgir Finnbogason, framkvæmdastjóri Fjárhags- og stjórnsýslusviðs, sagði starfi sínu lausu í morgun. Hann mun taka við starfi hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.

Þriðji framkvæmdastjórinn sem hyggst láta af störfum er Óskar Sandholt, framkvæmdastjóri Fræðslu- og menningarsviðs. Hann hefur verið staddur erlendis undanfarna daga vegna atvinnuumsóknar

Enginn framkvæmdastjóranna þriggja vildi láta hafa neitt eftir sér um málið.

Ekki náðist samband við Ásgerði Halldórsdóttur bæjarstjóra við vinnslu þessarar fréttar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×