Innlent

McDonalds vill ekki koma aftur - of flókið rekstrarumhverfi

Forsvarsmenn skyndibitakeðjunnar McDonalds, segjast ekki hafa neinar fyrirætlanir um að snúa aftur til Íslands eftir að þremur McDonalds stöðum var lokað nú um mánaðamótin. Þetta kemur fram á fréttasíðunni Foodweek.com.au.

Þar kemur fram að þrátt fyrir alvarlegt efnahagsástand hér á landi, þá eru McDonalds-menn helst ósáttir við einstaklega flókið rekstrarumhverfi hér á landi í ljósi einangrunar þjóðarinnar og smæð hennar.

Því telja McDonaldsmenn að það sé beinlínis einfaldara að reka ekki þennan heimsfræga skyndibitastað á Íslandi.

Fyrsti McDonaldsstaðurinn opnaði á Íslandi árið 1993. Þrír slíkir staðir voru starfræktir þar til nú um mánaðarmótin. Þá hætti Lyst efh., rekstrinum vegna óhagstæðs gengis en vörur í borgarana þurfti að kaupa erlendis frá.

Sömu eigendur og ráku McDonalds reka nú hamborgarastaðinn Metro. Svo virðist sem það séu hverfandi líkur á endurkomu McDonalds og skiptir engu þó efnahagurinn fari batnandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×