Innlent

Staðgreiðsla allt að 50 prósent á næsta ári

Heimir Már Pétursson. skrifar

Staðgreiðsla skatta verður allt að 50 prósent á næsta ári. Fjármálaráðherra segir að hækka verði skatta meira nú en ella hefði þurft, ef fyrri ríkisstjórnir hefðu ekki rústað skattkerfinu.

Formenn stjórnarflokkanna funduðu í dag með forystufólki aðilar vinnumarkaðrins um útfærslu skatta og aðrar aðgerðir sem tengjast stöðuleikasáttmálanum og baráttunni við fjárlagahallann. Samtök atvinnulífsins hafa lagst hart gegn fyrirhuguðum umhverfis- og auðlindasköttum upp á 16 milljarða.

Fjármálaráðherra segir stjórnvöld tilbúin að skoða aðrar raunhæfar leiðir, en það verði hins vegar allir að taka á sig byrðar sem það geti. Annars verði að færa frekari byrðar á launafólk, en ljóst er að staðgreiðsla einstaklinga mun hækka umtalsvert.

„Ég spái því að endaprósentan hjá okkur á næsta ári verði lægri en bæði í Svíþjóð og Danmörku," segir Steingrímur. En staðgreiðsla í Danmörku með hátekjuskatti getur hæst orðið 59 prósent og um 58 prósent í Svíþjóð.

Fjármálaráðherra var spurður hvort þetta þýddi að staðgreiðslan hér á landi yrði eitthvað nálægt 50 prósentunum á næsta ári:

„Ja, þú segir það. Við erum í 45 í dag og við skulum sjá til," svarði Steingrímur.

Og hún hækkar?

„Já enda hef ég engar stórar áhyggjur af því þótt endaprósentan í tekjuskatti á mjög háar tekjur færi upp undir 50 %. Við værum samt bara í meðaltalinu á Norðurlöndunum þó svo væri," sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×