Innlent

Könnun: ESB yrði kolfellt í kosningum

Sólveig Bergmann skrifar

Íslendingar myndu kolfella tillögu um inngöngu að Evrópusambandinu yrði kosið um það nú. Innan við þriðjungur þjóðarinnar er hlynntur aðild.

Þetta sýnir ný könnun Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Bifröst sem unnin var fyrir fréttstofu Stöðvar 2.

Þegar spurt var um aðildarviðræður við Evrópusambandið sagðist um helmingur vera þeim hlynntur en tæp 43 prósent voru þeim andvíg. Rúm 7 prósent tóku ekki afstöðu. Jafnframt voru íbúar höfuðborgarsvæðisins hlynntari aðildarviðræðum.

Í framhaldi var spurt um afstöðu til inngöngu í Evrópusambandið og þá voru mun fleiri sem ekki tóku afstöðu eða tæp 17 prósent. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 29 prósent vera mjög eða frekar hlynntir inngöngu á móti rúmum 54 prósentum sem voru því mjög eða frekar andvígir. Sami munur kom fram eftir búsetu, þar sem íbúar á höfuðborgarsvæðinu voru mun frekar hlynntari inngöngu en íbúar á landsbyggðinni.

Þeir sem tóku afstöðu til þess hvort þeir væru hlynntir eða andvígir inngöngu í Evrópusambandið voru spurðir um ástæðuna.

Þeir sem voru andvígir inngöngu nefndu atriði eins og að þá myndu Íslendingar missa sjálfstæði sitt, sjávarútvegsmál, að ísland eigi ekkert erindi í sambandið, landbúnaðarmál og auðlindir.

Þeir sem voru hlynntir nefndu flestir að það væri vegna þess að betra væri að vera hluti af Evrópu, til að geta tekið upp Evru eða vegna efnhagslegra ástæðna.

Könnunin var gerð dagana 26.október til 3.nóvember. Þátt tóku 859. Svarhlutfall var tæp 65 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×