Erlent

Al Gore að verða kolefnis-milljarðamæringur

Óli Tynes skrifar
Al Gore; allt er vænt sem vel er grænt.
Al Gore; allt er vænt sem vel er grænt. MYND/AP

Al Gore fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna gæti orðið fyrsti græni milljarðamæringur heimsins. Hann hefur fjárfest vel í fyrirtækjum sem teljast græn og það er að skila sér margfallt aftur.

Breska blaðið Daily Telegraph nefnir sem dæmi að á síðasta ári hafi fjárfestingasjóður sem Gore á hlut í lánað smáfyrirtækinu Silver Springs Network sjötíu og fimm milljónir dollara.

Silver Springs framleiðir hugbúnað og vélbúnað sem gerir rafmagnsdreifikerfi skilvirkari. Í síðustu viku tilkynnti Orkumálaráðuneytið um styrki upp á samtals 3,4 milljarða dollara til fyrirtækja í þeim geira.

Af því fóru yfir 560 milljónir dollara til fyrirtækja sem Silver Springs er með samninga við. Það þýðir að fjárfestingasjóður Gores gæti fengið lán sitt margfallt til baka á komandi árum.

Gagnrýnendur, aðallega af hægri vængnum, segja að Al Gore gæti orðið fyrsti kolefnis-milljarðamæringur heims.

Marsha Blackburn þingmaður republikana frá Tennessee hefur haldið því fram að Gore hagnist persónulega á orku- og loftslagsstefnunni sem hann er að hvetja þingið til að samþykkja.

Gore segir að hann sé einfaldlega að fylgja eftir hugðarefnum sínum með fjárfestingum. Hann sagði við þingkonuna; -Heldur þú að það sé eitthvað athugavert við að taka þátt í viðskiptum í þessu landi?

-Ég er stoltur af því. Ég er stoltur af því.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×