Enski boltinn

Souness: Benitez er heppinn með að vera enn í starfi

Ómar Þorgeirsson skrifar
Graham Souness.
Graham Souness. Nordic photos/AFP

Knattspyrnustjórinn Graham Souness, sem stýrði Liverpool á árunum 1991-1994, er hissa á því hvað knattspyrnustjóranum Rafa Benitez er sýnd mikil þolinmæði hjá Liverpool.

Souness er sannfærður um það að ef Benitez væri að stýra einhverju öðru af „topp fjögur" liðunum með sama árangri þá væri búið að láta hann taka pokann sinn.

„Mín gagnrýni á Benitez er sú að hann hefur verið þarna í fimm ár og eytt mikið af peningum en fyrir utan byrjunarliðið er leikmannahópurinn ekki nægilega góður.

Um leið og að liðið lendir í meiðslum sem eru óumflýjanleg, sérstaklega í krinum nóvember, þá tapar það gegn liðum eins og Lyon. Ég meina Lyon er alls ekki frábært lið og eftir að hafa unnið á Anfield þá tapaði það 4-1 gegn Nice í frönsku úrvalsdeildinni.

Ég er því sannfærður um það að ef Benitez væri stjóri hjá Arsenal, Chelsea eða Manchester United og væri að gera svipaða hluti þar og hjá Liverpool nú þá væri búið að reka hann.

Meðal annars vegna þess að stuðningsmenn hinna liðanna eru ekki jafn þolinmóðir og stuðningsmenn Liverpool," segir Souness í viðtali við Sky Sports fréttastofuna.

Souness hefur ekki verið í starfi síðan hann hætti hjá Newcastle árið 2006 en í maí árið 2008 var hann valinn versti knattspyrnustjóri enska boltans af Observer Sport Monthly fyrir dræmt gengi sitt sem knattspyrnustjóri Liverpool og Newcastle.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×