Viðskipti innlent

Yfirvöld skoða skúffufyrirtækið Magma

Ingimar Karl Helgason skrifar

Yfirvöld hafa kallað eftir upplýsingum um samband kanadíska félagsins Magma Energy og dótturfélags þess í Svíþjóð. Hið síðarnefnda er skúffufélag sem hefur keypt stóra hluti í HS Orku á Reykjanesi.

Nefnd efnahags og viðskiptaráðherra sem fylgist með framkvæmd laga um erlenda fjárfestingu, hefur kannað fjárfestingu kanadíska félagsins Magma Energy hér á landi. Unnur Kristjánsdóttir, formaður nefndarinnar, sagði við fréttastofu í dag að málið væri í ferli. HS orku, en þar vill magma eiga hátt í helmings hlut, hafi verið send fyrirspurn vegna þessa.

Júlíus Jónsson, forstjóri HS orku, segir svörum við spurningum nefndarinnar hefði verið svarað í dag. Í þeim fælust afrit af öllum samningum, meðal annars hvernig væri háttað sambandi Magma Energy í Kanada og dótturfélags Magma í Svíþjóð.

Samkvæmt lögum um erlenda fjárfestingu í orkufyrirtækjum, má aðili utan Evrópska efnahagssvæðisins ekki eiga hlut í íslensku orkufyrirtæki. Unnur Kristjánsdóttir sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar fyrir rúmum mánuði að ekki væri gert ráð fyrir skúffufyrirtækjum í lögum um takmörkun á erlendri fjárfestingu og nefndin þyrfti að fjalla um hvernig taka ætti á málum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×