Viðskipti innlent

Komnir með nægt fjármagn til þess að kaupa Haga

Breki Logason skrifar

Guðmundur Franklín Jónsson kaupsýslumaður segir hann og hóp fjárfesta nú þegar komna með nægt fé til að standa undir tilboði í hlutafé Kaupþings í Högum. Hann vill ekki upplýsa hverjir það eru sem standa að því með honum að reyna að eignast hlutinn.

Guðmundur Franklín segir að gamall skólafélagi úr Verzlunarskólanum, Guðmundur Örn Jóhannsson, hafi haft samband við sig fyrir tíu dögum og spurt hvort hann hefði áhuga á að vera með í hópi sem ætlaði að gera tilboð í Haga. Fljótlega var ákveðið að gefa almenningi kost á að taka þátt og heimasíðan, Þjóðarhagur.is, var stofnuð. Þar geta þeir sem vilja vera með skráð sig.

Fyrir utan þá sem skrá sig á síðunni er um 100 manna hópur að baki Guðmundi, en hann vill ekki gefa upp hverjir það eru. Hann segir hópinn ekki hafa séð ástæðu til þess að upplýsa það á þessari stundu, þar sem Baugsmenn hafi ekki látið vita hvaðan fé þeirra komi. Hópurinn samanstandi af mönnum víða að úr viðskiptalífinu sem sé annt um að nafn sitt komi ekki fram.

Aðspurður hvað hópurinn sé tilbúinn að greiða fyrir fyrirtækið talar Guðmundur um 10-15 milljarða. Hann segir það fara eftir því hve stóran hlut Nýi Kaupþing ákveði að selja. Áður en fyrirtækið fari í söluferli þurfi þeir hinsvegar að komast í bækur og gera áreiðanleikakönnun. Nú þegar hafa á bilinu 15-16 hundruð manns skráð sig á heimasíðu hópsins.

Guðmundur segir að nú þegar sé komið inn nóg af peningum frá hópnum og allt sem komi inn í gegnum heimasíðuna sé aukalega. Hann segir styrk hópsins fyrst og fremst vera hversu fjölmennur hann verður.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×