Innlent

Brýnt að nýta tímann og fara yfir regluverkið

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
„Það er gríðarlega mikilvægt að við nýtum þann tíma sem við höfum núna til þess að yfirfara allt okkar regluverk. Ekki síst í ljósi þess gerst hefur og til þess að skýra reglur, skýra og skerpa á eftirliti og til að læra eitthvað af öllu því sem hér hefur farið fram,“ sagði Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum á Alþingi í kvöld.

Verið var að ræða þingsályktunartillögu þingmanna Sjálfstæðisflokksins um stöðu minni hluthafa. Í tillögunni er lagt til að sett verði á laggirnar nefnd sérfróðra manna sem móti tillögur er hafi það að markmiði að styrkja stöðu minni hluthafa.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði málið snerta þúsundir einstaklinga. „Margir hafa tilhneigingu til að afgreiða þessi mál þannig að hér sé kannski um að ræða tap þeirra sem helst mega við því. Útrásavíkinga eða annarra slíkra sem menn hafa takmarkaða samúð með. En hafa verður í huga hér erum við að tala um tugi þúsunda einstaklinga,“ sagði þingmaðurinn.

Í greinargerð með tillögunni segir að á umliðnum árum hafi verið gerðar ýmsar breytingar á lagaumhverfinu til þess að bæta hlut minni hluthafa. Ljóst sé að breytingarnar hafi ekki gengið nægjanlega langt. Það hafa dæmin undangengna mánuði sannað.

„Fréttir hafa borist af stórfelldum lánveitingum til stærri hluthafa og gífurlegri áhættutöku. Slíkar aðgerðir, ef sannar reynast, koma fyrst og fremst niður á hag smærri hluthafa þó að á endanum bitni þær á þjóðinni allri. Mikilvægt er því af þessum ástæðum sérstaklega að huga að breytingum á lögum og reglum til að tryggja betur hagsmuni hinna minni hluthafa,“ segir í greinargerðinni.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×