Lífið

Hálfvitar sjá um gleðina

Rauða nefin komin upp. Ljótu hálfvitarnir með Axel Axelssyni, sem tók lagið upp, Unicef að kostnaðarlausu.
Rauða nefin komin upp. Ljótu hálfvitarnir með Axel Axelssyni, sem tók lagið upp, Unicef að kostnaðarlausu.

„Það kom inn pöntun um lag frá Unicef, reyndar fyrsta pöntunin sem við fáum. Nú hljóta Nova og Kringlan að fylgja í kjölfarið,“ segir Oddur Bjarni, meðlimur Ljótu hálfvitanna, um nýtt lag með hljómsveitinni. Lagið er lag dags rauða nefsins, sem Unicef stendur fyrir 4. desember. Hálfvitarnir fengu lausan tauminn við að semja lagið, þó með því skilyrði að það tengdist hugmyndinni að baki degi rauða nefsins, sem er að virkja gleðina til góðra hluta.

„Það var vitaskuld mikil áskorun fyrir okkur því við erum frekar tregablandið batterí,“ segir Oddur. „Við settum því þunglyndissjúklinginn í bandinu í málið, Snæbjörn „Bibba“ Ragnarsson, og hann tæklaði þetta með glans.“

Niðurstaðan er lag sem heitir „Hættu þessu væli“. „Það er um gaur sem er að kvarta undan lúxusvandamálum. Laginu er beint til þjóðarinnar og hún hvött til að hætta að nöldra og hafa bara gaman af þessu.“

Unicef hélt síðast upp á dag rauða nefsins fyrir þremur árum. Af því tilefni gerði Baggalútur lagið „Brostu“. Lagið með Ljótu hálfvitunum verður sett í spilun um leið og það verður tilbúið, líklega á morgun. Bandið tekur lagið svo auðvitað á sjálfum degi rauða nefsins í mikilli dagskrá sem Stöð 2 sýnir. Eftir fjölskyldutónleika í Salnum í Kópavogi hinn 6. desember ætla Hálfvitarnir svo að fara í jólafrí.

„Við eigum reyndar einhver jólalög á lager en það eru bara svo harðir jólalaga-andstæðingar í bandinu að við förum líklega aldrei í þann bransa,“ segir Oddur Bjarni.- drg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.