Erlent

Myrtu fólk og seldu fituna til snyrtivörufyrirtækja í Evrópu

Óli Tynes skrifar
Lögreglan í Lima sýnir flöskur með mannafitu og önnur gögn.
Lögreglan í Lima sýnir flöskur með mannafitu og önnur gögn.

Fjórar manneskjur hafas verið handteknar í Perú fyrir að myrða tugi manna og selja fituna af þeim til snyrtivöruframleiðenda í Evrópu. Að minnsta kosti fimm manna til viðbótar er leitað. Þar af eru tveir Ítalar.

Á fréttavef BBC segir að tæpar tvær milljónir króna hafi fengist fyrir lítrann af mannafitu. Á fundi með fréttamönnum í Lima höfuðborg Perús sýndi lögreglan tvær flöskur með fljótandi mannafitu. Einnig var sýnd mynd af einu hinna meintu fórnarlamba.

Lögreglan segir að glæpagengið kunni að bera ábyrgð á hvarfi allt að sextíu manna. Þeir gætu þó verið mun fleiri því einn hinna handteknu sagði lögreglunni að foringi þeirra hefði myrt fólk vegna fitu þess í heila þrjá áratugi.

Angel Toledo lögregluforingi sagði Reuters fréttastofunni að hinir handteknu hefðu gefið skilmerkilega lýsingu á því hvernig þeir unnu fituna úr líkum hinna myrtu.

Það er staðreynd að mannafita er notuð við fegrunaraðgerðir. Yfirleitt er það þó fita úr viðkomandi sjúklingi sjálfum og strangar reglur gilda um slíkar meðferðir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×