Viðskipti innlent

NIB hækkar vexti umtalsvert til íslenskra lánshafa

Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) sendi nokkrum sveitarfélögum og Lánasjóði sveitarfélaga erindi um að vextir á þeim lánum sem komin væru til endurskoðunar yrðu hækkaðir umtalsvert. Ástæðan væri verra lánshæfismat.

Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, segir að í nokkrum tilvikum hafi tilskilins tilkynningarfrests ekki verið gætt og vaxtahækkun á þeim lánum frestist því. Tilkynna þarf um vaxtabreytingar með 45 daga fyrirvara.

Fjármálaráðherra fundaði með fulltrúum bankans í gær og embættismenn í kjölfarið. „Við töldum ástæðu til að funda með fjárfestingarbankanum bæði vegna þessa og annarra mála sem varða samskipti Íslands og bankans," segir Guðmundur. Þar er vísað til mála sem snúa að óskum bankans um lán hans til gömlu bankanna. Fjármálaráðherrar Norðurlandanna funda á morgun og segir Guðmundur líklegt að málið verði rætt þar.

Orkuveita Reykjavíkur er greiðandi tveggja lána sem Reykjavíkurborg tók á sínum tíma, en þau fluttust til fyrirtækisins með veituverkefnum. Anna Skúladóttir fjármálastjóri staðfestir að bankinn hafi tilkynnt hækkun, en vill ekki tilgreina hve mikla. „Þeir vildu hækka um töluvert marga punkta." Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var um margfalda hækkun vaxtaprósentunnar að ræða.

Bankinn er sameign Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna og situr Þorsteinn Þorsteinsson í stjórn hans fyrir Íslands hönd. Hann var staddur erlendis í gær og náðist ekki í hann. Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga, vildi ekki tjá sig um málið. Lánasjóðurinn hefði staðið við allar sínar skuldbindingar.

Ríkisútvarpið greindi frá því í júlí að bankinn væri hættur að lána íslenskum fyrirtækjum. Helmingur af tapi bankans á síðasta ári hafi verið vegna íslenskra lána. Heildartapið nam 145 milljónum evra, um 26,5 milljörðum króna að núvirði.- kóp








Fleiri fréttir

Sjá meira


×