Viðskipti innlent

Hefur lagt fram 14 frumvörp um breytingar á fjármálamarkaði

Efnahags- og viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, hefur að undanförnu lagt fram á Alþingi 14 frumvörp til laga og breytinga á gildandi lögum. Meðal annars er um að ræða breytingar á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög sem ætlað er að auka jafnræði hluthafa, gagnsæi í eignarhaldi og jafnrétti í stjórnum og framkvæmdastjórn fyrirtækja.

Í tilkynningu segir að þá séu lagðar til viðamiklar breytingar á lögum um verðbréfasjóði, fjárfestingasjóði og fagfjárfestasjóði og grunnur er lagður að framtíðarkerfi innstæðutrygginga, svo fátt eitt sé nefnt. Meðal annarra mála sem ráðherra hyggst leggja fyrir í desember er umfangsmikið frumvarp byggt á gagngerri endurskoðun á lögum um starfsemi fjármálafyrirtækja.

Brýnt er að auka gagnsæi á eignarhaldi og atkvæðisrétti hluthafa í íslenskum hlutafélögum, í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið undanfarna mánuði. Með lagabreytingunum er ætlunin að styrkja til muna gildandi reglur um starfsemi hlutafélaga og einkahlutafélaga, þannig að hlutaskrá geymi á hverjum tíma réttar upplýsingar um hluthafa,hlutafjáreign þeirra og atkvæðisrétt. M.a. eru lagðar ríkar skyldur á stjórnir félaganna að sjá til þess að hlutaskráin geymi á hverjum tíma réttar upplýsingar um þessi atriði.

Þá hefur ráðherra einnig lagt fram frumvarp til innleiðingar á EES-reglum sem ætlað er að auka réttindi og áhrif hluthafa í félögum sem hafa skráð skuldabréf eða hlutabréf á skipulegum verðbréfamarkaði.

Frumvarp ráðherra til breytinga á lögum um verðbréfasjóði, fjárfestingasjóði og fagfjárfestasjóði er byggt á ítarlegri endurskoðun á gildandi lögum sem fram fór í kjölfar hruns stærstu viðskiptabankanna. Nefnd sem ráðherra skipaði í vor endurskoðaði allt regluverkið og gerði tillögur að breytingum á ákvæðum um fjárfestingarheimildir, eignarhald, óhæði rekstrarfélaga, lagaumhverfi fagfjárfestasjóða o.fl. Þá er ætlunin að innleiða nauðsynlegar breytingar sem fram koma í tilskipunum ESB um sameiginlega fjárfestingu.

Meðal þess sem tekið er á í frumvarpinu eru tengsl rekstrarfélaga sjóða, móðurfélaga rekstrarfélaga og vörslufyrirtækja. Einnig eru settar fram mun skýrari reglur og hömlur á fjárfestingu í einstökum félögum eða tengdum aðilum, en sem kunnugt er hefur komið fram mikil gagnrýni á áhættusækin viðskipti með verðbréf aðila sem voru tengdir innbyrðis eða tengdir rekstrarfélögum og vörslufyrirtækjum peningamarkaðsjóðanna fyrir hrun.

Tilgangur frumvarpsins um innistæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta er að innleiða breytingar á tryggingarkerfinu til samræmis við breytingar á regluverki Evrópusambandsins. Þá kalla þær ábyrgðir sem fallið hafa á Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta á heildarendurskoðun á lögunum. Ný lög hafa hinsvegar engin áhrif á fyrri og ítrekaðar yfirlýsingar ríkisstjórna um að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi séu tryggðar að fullu.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×