Innlent

Þrjár stúlkur játuðu árás í Heiðmörk

Í Heiðmörk. Málið vakti óhug þegar það kom upp. Svo virðist sem stúlkurnar hafi verið að hefna sín vegna ummæla sem þolandinn lét falla um ástalíf einnar þeirrar.fréttablaðið/anton
Í Heiðmörk. Málið vakti óhug þegar það kom upp. Svo virðist sem stúlkurnar hafi verið að hefna sín vegna ummæla sem þolandinn lét falla um ástalíf einnar þeirrar.fréttablaðið/anton

Þrjár sautján ára stúlkur játuðu fyrir dómi í fyrradag að hafa ráðist á fjórðu stúlkuna í Heiðmörk í apríl á þessu ári. Vegna skýlausra játninga stúlknanna var málið í kjölfarið dómtekið og má búast við dómi á næstu vikum.

Málið vakti mikla athygli þegar það kom upp á sínum tíma. Systir stúlkunnar sem ráðist var á lýsti hroðalegum líkamlegum sem andlegum áverkum sem stúlkan bar, eftir að ekið var með hana nauðuga frá heimili hennar upp í Heiðmörk og gengið þar í skrokk á henni.

Ákæra á hendur stúlkunum var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness á miðvikudag. Þinghaldið var lokað en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var þeim öllum gefin að sök minni háttar líkamsárás; tveimur fyrir að hafa kýlt stúlkuna ítrekað með krepptum hnefa og þeirri þriðju fyrir að hafa slegið stúlkuna í hnakkann með flötum lófa þegar komið var inn í bíl að hinum barsmíðunum loknum.

Þær játuðu sök fyrir dómi og var málið í kjölfarið dómtekið.

Engin skaðabótakrafa fylgdi ákærunni, en á sínum tíma sagði systir stúlkunnar að fjölskyldan myndi ekki sætta sig við neinn málamyndadóm og að farið yrði í einkamál við stúlkurnar ef dómurinn yrði of vægur að þeirra mati.

- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×