Erlent

Kexruglaður karfi

Óli Tynes skrifar
Hopp og hí og trallala.
Hopp og hí og trallala. Mynd/AP

Bandaríkjamenn hafa talsverðar áhyggjur af asískum vatnakarfa sem fluttur var til landsins til þess að hreinsa fiskitjarnir og úrgangstjarnir í suðurríkjunum á sjöunda áratug síðustu aldar.

Karfinn slapp út í Missisippi fljót. Hann hefur fjölgað sér gríðarlega og hefur smámsaman verið að færa sig norðar. Bandaríkjamenn hafa áhyggjur af því að hann drepi aðra fiskistofna.

Ekki með því að éta fiskana heldur með því að aféta þá. Karfinn getur orðið fjögurra feta langur og fimmtíu kíló þannig að hann gúffar í sig ósköpin öll af svifi.

Karfinn hefur líka þann undarlega sið að verða alveg geggjaður ef hann heyrir hljóð í utanborðsmótor. Þá stekkur hans eins og brjálæðingur, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Margir bátasiglarar hafa slasast af þessu. Það er ekkert smáræðis högg sem menn fá þegar fimmtíu kílóa fiskur stekkur í trýnið á þeim af öllu afli og báturinn kannski þar að auki á góðri ferð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×