Viðskipti innlent

GGE: Nýr forstjóri og eignir seldar

Stjórn Geysis Green Energy hefur, í samráði við viðskiptabanka félagsins, tekið ákvörðun um að vinna markvisst að lækkun skulda félagsins með sölu eigna þess á næstu misserum. Í tengslum við þá stefnumótun hefur Ásgeir Margeirsson ákveðið að hætta sem forstjóri félagsins. Alexander K. Guðmundsson, fjármálastjóri Geysis, hefur verið ráðinn í hans stað.

Ásgeir segir að hann hafi tilkynnt það fyrir nokkru að kæmi sú staða upp að eignir yrðu seldar þá teldi hann sig ekki rétta aðilann í að leiða það ferli. „Ég hef unnið að vexti og uppgangi Geysis allt frá því félagið var stofnað og tel eðlilegt að aðrir beri ábyrgð á þeirri vinnu sem nú er framundan. Því varð að samkomulagi milli mín og stjórnar félagsins að ég léti af störfum. Ég óska nýjum forstjóra velfarnaðar í starfi og þakka stjórn og starfsmönnum Geysis ánægjulegt samstarf á liðnum árum," segir Ásgeir Margeirsson, fráfarandi forstjóri.

„Það er ekkert leyndarmál að nokkrir af helstu eigendum félagsins urðu illa úti í bankahruninu og hafa því ekki getað stutt sem skyldi við bakið á félaginu. Þá gerir staðan á fjármálamörkuðum okkur erfitt um vik að fjármagna Geysi eins og við helst kysum. Þess vegna var ákveðið að lækka skuldir félagsins með sölu eigna Geysis og mun það verkefni verða unnið í fullu samráði við viðskiptabanka félagsins á næstu misserum," segir Alexander K. Guðmundsson, nýr forstjóri.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×