Innlent

Kannabisræktun í glæsiíbúð

Kannabis Lögreglan hefur stöðvað tvær ræktanir á undanförnum dögum.
Kannabis Lögreglan hefur stöðvað tvær ræktanir á undanförnum dögum.

Fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun í fjölbýlishúsi í Gerðunum í Reykjavík í fyrradag. Ræktunin var í 120 fermetra glæsiíbúð sem var meira og minna undirlögð af kannabisplöntum. Þær reyndust vera um 160 talsins.

Einnig fann lögregla um 25 grömm af maríjúana í íbúðinni, auk tveggja kílóa af þurrkuðum laufum sem ræktendur nota til að búa til hassolíu.

Karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn á staðnum. Hann virtist hafa búsetu í smákytru í íbúðinni. Á sunnudag tók fíkniefna­deildin kannabisræktun á Laugavegi. Hún var ekki stór, um 35 plöntur, en þær voru þeim mun öflugri. Ræktunin var á annarri hæð í húsi á miðjum Laugaveginum. Leigutaki húsnæðisins, rétt rúmlega tvítugur maður, er grunaður um að hafa staðið að ræktuninni en hann hafði ekki verið yfirheyrður um hádegisbil í gær.

Að sögn lögreglu virðast kannabisræktanir nú hafa breyst. Ræktanirnar eru smærri í sniðum innan höfuðborgarsvæðisins, sem talið er gert til að dreifa áhættunni. Ræktendur verði þá fyrir minna „tjóni“ þegar lögreglan bankar upp á.- jss



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×