Innlent

Eignarhlutur Björgólfs Thors verði þynntur út

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Katrín Júlíusdóttir lagði fram frumvarpið í fyrrakvöld.
Katrín Júlíusdóttir lagði fram frumvarpið í fyrrakvöld.
„Það sem þetta verkefni snýst um er einfaldlega þetta. Ætlum við að láta alla fjárfestinguna fara forgörðum út af fortíð og sögu eins minnihlutaeigenda í þessu fyrirtæki eða ætlum við að stuðla að því að það geti gerst að það komi nýtt fjarmagn inn í þetta verkefni og að þessi aðili sem hér er um rætt verði þynntur út?" Þetta sagði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.

Katrín var að svara Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Hreyfingarinnar, sem spurði hvort eðlilegt væri að ríkið veitti fyrirtæki sem væri að 40%, í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar viðskiptafyrirgreiðslu vegna fyrirhugaðrar byggingar á gagnaveri á Reykjanesi. „Telur ráðherra að Björgólfur Thor Björgólfsson ætti ekki fyrst að skila þýfinu sem hvarf af Icesave reikningunum sem hann ber beina ábyrgð á?"

„Mér þykir ógeðfellt hvernig þingmenn hér eru að reyna að gera þetta mál tortryggilegt," sagði Katrín. Um væri að ræða mikið hagsmunamál fyrir Suðurnesjamenn og alla landsmenn.

Katrín sagði að þegar frest hefði af því að erlendir aðilar hefðu haft áhuga á að reisa gagnvar hafi hið opinbera strax farið í viðræður við þessa aðila. Í millitíðinni hafi orðið hrun á íslenskum bankamarkaði. Við það hafi ýmislegt breyst en þeir aðilar sem áttu þarna minnihluta í fyrirtækinu væru enn inni. Katrín sagði að aðgerðir stjórnvalda miðuðu að því að eignarhlutur Björgólfs yrði þynntur út.

Iðnaðarráðherra lagði fram frumvarp um heimildir til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ við Verner Holdings á Alþingi í fyrrakvöld.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×