Innlent

Götunöfnum breytt til að minnast kvenskörunga

Karen Kjartansdóttir skrifar
Frímúrarar munu nú standa við Bríetartún.
Frímúrarar munu nú standa við Bríetartún.

Íslenski angi eins helsta karlaklúbbs heimsins mun brátt standa við götu sem kennd verður við þekktasta kvenréttindafrömuð þjóðarinnar. Skipulagsráð hefur samþykkt að Skúlagata heiti framvegis Bríetartún og þrjár aðra nálægar götur munu framvegis bera nöfn kvenskörunga.

Fyrir 101 ári voru fyrstu konurnar kjörnar í bæjarstjórn í Reykjavík.

Nú hefur Skipulagsráð Reykjavíkur ákveðið að minnast þessara kvenna með því að breyta götunöfnum í Túnahverfi.

Þannig verður Skúlagötu fyrir ofan Snorrabraut breytt í Bríetartún, eftir Bríeti Bjarnhéðinsdóttur.

Höfðatúni verði breytt í Katrínartún, eftir Katrínu Magnússon. Sætúni verði breytt í Guðrúnartún eftir Guðrúnu Björnsdóttur og Skúlatúni verði breytt í Þórunnartún eftir Þórunni Jónassen.

Júlíus Vífill Ingvarsson, formaður skipulagsráðs, segist viss um að einhverjir verði ósáttir við breytingarnar í fyrstu. Full sátt hafi verið um málið í ráðinu enda þörf á því að minnast þess starf sem forsprakkar kvennabaráttunnar á Íslandi unnu og framlags þeirra til mannúðar- og velferðarmála. Hann á því von á því að breytingarnar venjist vel.

Júlíus segist vonast til þess að hægt verði að skipta um skilti með götuheitum sem fyrst auk þess sem koma á upplýsingaskiltum um konurnar sem um ræðir.

En mesta breytingin verður ef til vill fyrir frímúranna við Skúlagötu en ekki þykir alveg víst að allir meðlimir þessa sögufræga karlaklúbbs verði sáttir við að húsnæði Frímúrareglu Íslands verði ekki lengur við Skúlagötu heldur Bríetartún.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×