Innlent

Ögmundur fann til áhrifa - mun ekki biðja Alþingi afsökunar

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson.

„Ég drakk vín með mat," segir Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, en Kastljós greindi frá því að hann hefði beðist undan viðtali vegna þess að hann hefði verið undir áhrifum áfengis. Við þessu gengst Ögmundur en tekur fram að hann hafi ekki verið mjög ölvaður. Hann hafði borðað fyrr um daginn og fengið sér vín með matnum. Hann fann til áhrifa og ákvað að fara ekki í viðtal við Kastljósið af prinsipp ástæðum.

Spurður hvort það hafi legið fyrir að gengið yrði til atkvæða áður en hann fékk sér áfengi sagði Ögmundur að það geti alltaf komið upp á.

Aðspurður hvort það sé lítilsvirða við Alþingi að mæta þangað drukkinn segir Ögmundur: „Það verður hver og einn að dæma um það."

Ögmundur segir að það sé hinsvegar vont að þetta mál gefi ranga mynd af störfum sínum. „Þetta gefur brenglaða mynd af þeim."

Hann áréttar hinsvegar að hann fari aldrei ölvaður í púlt og hafi aldrei gert en annar þingmaður, Sigmundur Erni Rúnarsson, varð uppvís af því í lok ágúst síðastliðinn og baðst afsökunar á því.

Þegar Ögmundur er spurður hvort atvikið gefi tilefni til þess að hann biðjist afsökunar á Alþingi líkt og Sigmundur Ernir, segist hann ekki telja svo.

Þess má geta að forseti Alþingis sagði þingmenn bera ábyrgð á sjálfum sér þegar málið varðandi Sigmund kom upp. Hann var ekki ávíttur vegna þessa.

Að lokum var Ögmundur spurður hvort það sé lenska að þingmenn komi til starfa eftir að hafa bragðað áfengi, segir Ögmundur: „Þetta tíðkast ekki á þessum vinnustað frekar en öðrum."




Tengdar fréttir

Segja Ögmund hafa kosið undir áhrifum áfengis

Ögmundur Jónasson var undir áhrifum áfengis þegar hann kaus á Alþingi í gær samkvæmt Kastljósi í kvöld. Ekki er ljóst hvaða mál hann var að kjósa um. Í frétt Kastljóss kom fram að Ögmundur hefði beðist undan viðtali þar sem hann hefði verið undir áhrifum. Fréttamaður Kastljóss hafði farið sjálfur niður á Alþingi þar sem hann fékk afsvar um viðtal í mynd.

Á að hafa kosið ölvaður um breytingar á fæðingarorlofi

Meðal þeirra mála sem var kosið um á Alþingi í gær var frumvarp um breytingar á almannatryggingum sem varðar breytingar á fæðingarorlofi. Um það hefur verið deilt nokkuð og málið hlotið allnokkra athygli. Kastljós hélt því fram í kvöld að þingmaður Vinstri grænna, Ögmundur Jónasson, hafi verið ölvaður í þingsal þegar kosningar fóru fram.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×