Innlent

Egill Helgason mæti á fund allsherjarnefndar

Egill Helgason.
Egill Helgason. Mynd/Stefán Karlsson

Þingflokkur Hreyfingarinnar vilja að ákveðnir einstaklingar verði kallaðir á fund allsherjarnefndar til að ræða frumvarp um þingmannanefnd sem ætlað er að fjalla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið. Í þeim hópi eru meðal annars sjónvarpsmaðurinn Egill Helgason, Þorvaldur Gylfason prófessor í hagfræði og Róbert Spanó settur umboðsmaður Alþingis.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segir að Egill sé einn

mikilvægasti og virtasti þáttastjórnandi samtímans. Hann segir Þorvald hafa verið þann fræðimann innan Háskólans sem hafi fyrstur varað við hruninu og þá telur hann að sérþekking Róberts geri álit hans afar mikilvægt.

„Þrátt fyrir ítarlegar, vandaðar og málefnalegar ábendingar og tillögur Hreyfingarinnar í þessu máli er enginn áhugi meðal annarra afla á Alþingi að afgreiða það með öðrum hætti en þeim sem tryggir augljósa hagsmuni þeirra flokka sem voru við stjórnvölin við bankahrunið og í aðdraganda þess," segir í tilkynningu frá þingflokki Hreyfingarinnar.

Öllum hljóti að vera ljóst að Alþingismenn séu ekki færir um að leggja hlutlaust mat á eigin störf, foringja sinna eða samstarfsmanna til margra ára þegar kemur að skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

„Nauðsynlegt er að hlutlausir aðilar komi að vinnslu málsins á öllum stigum þess, hvort heldur sem er sem álitsgjafar við lagasmíð eða fagmenn við afgreiðslu skýrslunnar. Tryggja þarf réttlæti og gegnsæi í öllu ferlinu," segir í tilkynningu þingflokksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×