Viðskipti innlent

Uppboð: Verðmæti minkaskinna tvöfaldast milli ára

Verð á minkaskinnum hækkaði um 36% á uppboði hjá Kopenhagen Fur í Kaupmannahöfn í morgun. Þetta þýðir að framleiðsluverðmæti íslenskra minkabúa mun tvöfaldast milli ára en flest skinnin héðan eru seld hjá Kopenhagen Fur á apríl- og júníuppboðunum.

 

Í frétt um málið í Jyllands Posten segir að hin mikla hækkun frá september og fram að desemberuppboðinu hafi einkum stafað af miklum áhuga kínverska kaupenda. Kínverjar voru 240 af 300 kaupendum á uppboðinu.

 

Meðalverð fyrir skinn á uppboðinu nú reyndist um 7.000 kr. en hæstu verðin eða 10.500 kr, fengust fyrir stutt hvíthærð karlskinn. Björn Halldórsson formaður Sambands íslenskra loðdýraræktenda segir að hérlendis séu nú framleidd að jafnaði 160 til 180.000 minkaskinn.

 

Miðað við meðalverðið nú er framleiðsluverðmæti íslenskra minkaskinna um 1,2 milljarður kr. Björn segir að framleiðlsuverðmætið á þessu ári liggi á bilinu 5-600 milljónir kr. Því má reikna með að verðmætið tvöfaldist á næsta ári ef fyrrgreint meðalverð heldur sem allar líkur eru á. Hin mikla hækkun nú kom mönnum á óvart því verð á skinnunum hefur verið hátt allt þetta ár. Raunar hækkuðu skinnin um 30% á uppboðinu í febrúar s.l.

 

Björn segir að allar geymslur fyrir minkaskinn í Kína séu nú tómar. Það magn sem nú var selt, 1,4 milljónir skinna, muni koma á markaðinn í Kína fyrir mánaðarmótin janúar/febrúar á næsta ári en þá hefst nýárið í Kína.

„Þá munu allar geymslurnar tæmast að nýju í tíma fyrir febrúaruppboðið," segir Björn. Þess má geta að Kopenhagen Fur heldur uppboð fimm sinnum á ári og taka Íslendingar einkum þátt í apríl og júníuppboðunum eins og fyrr greinir. Lítilsháttar magn af skinnum frá Íslandi var selt á uppboðinu nú.

 

Hvað 36% hækkunina varðar segir Björn að hún ein og sér geti staðið undir öllum fóðurkostnaði minkabúanna á landinu. Og fóðurkostnaðurinn er stærsti rekstrarkostnaðurinn. „Við sem stundum minkarækt höfum því ástæðu til að vera bjartsýnir á framtíðina," segir Björn.

 

Minkabændur á Íslandi sækja fjármögnun sína beint til Kopenhagen Fur. Þar fá þeir sín afurðalán gegn veði í dýrum og skinnum. Og vextirnir á afurðalánunum frá Kopenhagen Fur eru aðeins 4%. „Slíkt þætti gott hérlendis í dag," segir Björn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×