Viðskipti innlent

Getur ekki afturkallað greiðslur frá Milestone til Ingunnar

Skiptastjóri þrotabús Milestone mun ekki geta afturkallað greiðslur upp á alls 5,2 milljarða króna til Ingunnar Wernersdóttur, systur Wernersbræðra, þar sem þær áttu sér stað meira en tveimur árum áður en Milestone fór í greiðslustöðvun.

Ingunn Wernersdóttir, systir Karls og Steingríms Wernerssona sem voru helstu eigendur Milestone, fékk samtals 5,2 milljarða króna í greiðslur frá Milestone á árunum 2006-2007. Um var að ræða greiðslur vegna kaups bræðranna á hlut hennar í Milestone.

Í skýrslu skiptastjóra Milestone, sem kynnt var fyrir kröfuhöfum í síðustu viku og Viðskiptablaðið greinir frá í dag, kemur fram að líta megi á greiðslurnar sem lán. Félag bræðranna fékk lán hjá Milestone til að kaupa Ingunni út. Í skýrslu skiptastjórans segir að nánast ekkert hafi verið greitt af umræddri skuld bræðranna við Milestone.

Samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti má rifta gerningum sem fela í sér ótilhlýðilega ráðstöfun fjármuna eða samningum sem fela í sér gjafir til nákominna í allt að 24 mánuði áður en þrotamaður óskaði eftir greiðslustöðvun. Það er því afar ólíklegt að skiptastjórinn geti afturkallað greiðslurnar þar sem þær áttu sér stað meira en tveimur árum áður en Milestone fór í greiðslustöðvun. Ingunn vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa náði tali af henni í dag, en eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur hún ráðið lögmenn til að gæta hagsmuna sinna í málinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×