Lífið

Hart tekið á Fangavaktar-þjófum

Snæbjörn Steingrímsson segir að niðurhalið á Fangavaktinni sé hreinn og klár þjófnaður. Málið kemur inn á borð lögreglu í dag.
Snæbjörn Steingrímsson segir að niðurhalið á Fangavaktinni sé hreinn og klár þjófnaður. Málið kemur inn á borð lögreglu í dag. MYND/365

„Það verður tekið hart á þessum þjófnaði. Við höfum margfalt betri upplýsingar um þá aðila sem reka þessar skráarskiptasíður en við höfum haft áður og þetta er eitthvað sem verður kært til lögreglu enda á ég fund með henni á morgun um þetta mál," segir Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdarstjóri SMÁÍS.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær þá stálu hátt í tvö þúsund netverjar fyrsta þættinum af Fangavaktinni á vefsíðunni thevikingbay.org aðeins nokkrum klukkustundum eftir að þátturinn var frumsýndur. Þeir geta nú átt von á því að vera kærðir fyrir þjófnað.

Snæbjörn segir að allir aðilar hafi verið viðbúnir þessu mikla niðurhali og hafi því undirbúið sig mjög vel. „Þannig að við sátum bara fyrir framan tölvurnar og söfnuðum saman sönnunargögnum," útskýrir Snæbjörn og bætir því við að þeir líti á þetta sem hreinan og kláran þjófnað.

„Þetta er klárlega stuldur sem getur komið í veg fyrir að hægt sé að gefa vöruna út. Menn mega ekki gleyma því að það eru viðvkæmir tímar í þessum iðnaði um þessar mundir og menn mega hreinlega ekki við því að það sé verið að stela svona. Þarna eru því gríðarlegar fjárhæðir í húfi; dvd-útgáfa og áskriftasala. Og ekki má gleyma því að þetta efni er mjög dýrt í framleiðslu."

Snæbjörn segir að eflaust muni einhverjar sleppa með skrekkinn en bætir því við að þeir sem hafa ólöglega útgáfu af Fangavaktinni inni á sinni tölvu mættu alveg vera með í maganum í dag. „Það er svolítið handahófskennt hvort menn eigi von á kærum eða ekki. Stundum, þegar verið er að safna saman sönnunargögnum, þá liggja menn misjafnlega vel við höggi."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.