Innlent

Taka á móti 10 þúsundasta sjósundgestinum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Benedikt Hjartarson er án efa þekktasti sjósundkappi á Íslandi. Mynd/ Arnþór.
Benedikt Hjartarson er án efa þekktasti sjósundkappi á Íslandi. Mynd/ Arnþór.
Á næsta mánudag ætla starfsmenn Ylstrandar að taka á móti 10 þúsundasta vetrarsjósundgestinum í ár. „Ég mæti alltaf þarna á mánudögum. Á veturna mæti ég alltaf þrjá daga í viku og mánudagur er einn af þeim," segir Benedikt Hjartarson, sundkappi þegar Vísir spyr hann hvort hann ætli að vera viðstaddur í Nauthólsvíkinni á þessum tímamótum.

Benedikt segist allt eins eiga von á því að það verði gert eitthvað til þess að halda upp á áfangann. „Þeir bregða oft á leik þarna," segir Benedikt. Hann bendir á að í desember í fyrra hafi oft verið upplestrar úr bókum í desember og á von á því að það verði áfram fjör í vetur.

Benedikt er án efa þekktasti sjósundkappi landsins enda er hann sá eini sem hefur tekist að synda yfir Ermasundið. Spurður út í ástæðurnar fyrir vinsældum sjósundsins segir hann að það séu fleiri og fleiri að uppgötva kosti þess. Við vorum þrjú til fjögur að fara þarna fyrir fjórum árum. En svo bara smám saman þegar umræðan kom um sjósund jókst þetta. Það eru alltaf fleiri og fleiri að uppgötva hvað þetta er gott," segir Benedikt.

Á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að sjósund hafi verið að festa sig í sessi sem vinsæl útivist sem fjölmargir nýti sér sem góða leið til heilsueflingar. Fjölgunin hafi verið mikil á milli ára því gestir í vetrarsjósundi allt árið í fyrra hafi verið um 3294 en þeirri fjöldatölu hafi verið náð í byrjun mars á þessu ári. Árið 2007 hafi gestir verið 826 manns en ekki sé ólíklegt að fjöldi gesta fari nærri 12.000 á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×