Innlent

Íslendingar getið fengið vinnu í Sviss

Svissnesku Alparnir. Virkjunin verður í um 2.000 metra hæð sem gerir aðgengi að staðnum töluvert erfitt, að sögn Karls.
Svissnesku Alparnir. Virkjunin verður í um 2.000 metra hæð sem gerir aðgengi að staðnum töluvert erfitt, að sögn Karls.

Íslenskir aðalverktakar (ÍAV) hafa boðið í gerð stórrar vatnsaflsvirkjunar í Sviss ásamt þremur erlendum fyrirtækjum. Hópurinn átti lægsta boðið og stefnir því allt í að ÍAV verði þátttakendur í verkinu.

Karl Þráinsson, aðstoðarforstjóri ÍAV, segir hugmyndina með tilboðinu að Íslendingar geti fengið vinnu við verkið. Enn eigi þó eftir að ganga til samninga við verkkaupann auk þess sem fyrirtækin fjögur, ÍAV, tyrkneska félagið Marti-group, Toneatti frá Sviss og Tubau frá Slóvakíu, eigi eftir að skipta með sér verkhlutum. Ekki sé því tímabært að ræða um hversu margir Íslendingar gætu mögulega fengið vinnu við verkið.

Um er að ræða þúsund megavatta virkjun sem virkjar um 600 metra fallhæð á milli tveggja stöðuvatna í Ölpunum. Tilboð fyrirtækjanna fjögurra hljóða upp á sem samsvarar um 70 milljörðum íslenskra króna. Til samanburðar var í upphafi gert ráð fyrir að Kárahnjúkavirkjun kostaði 96 milljarða. Sá kostnaður hefur þó risið.

Gert er ráð fyrir að samningaviðræður við verkkaupann hefjist á næstu vikum. Áætlað er að verkið geti hafist á þessu ári og að verktíminn verði um fimm ár.

- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×