Innlent

Íslendingar valdir að skotárás í Danmörku

Mennirnir notuðu afsagaða haglabyssu við árásina.
Mennirnir notuðu afsagaða haglabyssu við árásina.

Svo virðist sem nokkrir Íslendingar hafi valdið skotárás Haslev í Danmörku í gærkvöldi.

Lögreglan í Haslev segir í viðtali við Danska ríkisútvarpið að þetta hafi byrjað á bæjarkránni í Haslev í gærkvöldi.

Þar hafi nokkrir Íslendingar lent í útistöðum við nokkra Dani og barið þá í klessu. Sérstaklega hafi einn 24 ára gamall Dani farið illa út úr slagsmálunum.

Danirnir ákváðu að þessa skyldi hefnt. Síðar um kvöldið náðu þeir sér í afsagaða haglabyssu og fóru á gistiheimilið þar sem þeir töldu Íslendingana búa.

Þeir hófu skothríð á glugga gistiheimilisins. Þar fyrir innan voru hinsvegar engir Íslendingar heldur aðeins blásaklausir Pólverjar sem að vonum var brugðið. Enginn þeirra varð þó fyrir skoti.

Lögreglan handtók þrjá Dani, 23, 25 og þrjátíu og eins árs. Þeir verða teknir til yfirheyrslu síðar í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×