Erlent

Svíar kveikja í kanínum

Óli Tynes skrifar
Yljar Svíum.
Yljar Svíum.

Svíar kveikja í um sexþúsund kanínum á ári hverju. Sænska Aftonbladet skýrir frá þessu með nokkrum hryllingi.

Um sexþúsund kanínur eru skotnar í Stokkhólmi á ári hverju. Þar er meðal annars um að ræða gæludýr sem fólk treystir sér ekki til eða nennir ekki að hugsa um lengur.

Yfirvöld líta á kanínurnar sem meindýr og segja nauðsynlegt að skjóta þær til þess að reyna að halda stofninum eitthvað í skefjum.

Í brennsluofna

Fyrr á árum var hræjunum fleygt á ruslahauga en Evrópusambandið bannað slíka förgun árið 2006.

Þá var gripið til þess ráðs að setja hræin í gríðarstórar frystigeymslur þartil einhverjum datt í hug það snjallræði að nota þau til upphitunar.

Nú fara hræin því fyrst í frystigeymslur og þaðan í brennsluofna hjá varmaveitum sem sjá Svíum fyrir yl þegar kólnar í veðri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×