Innlent

„Gömlu nýlenduþjóðirnar haga sér með ólíkindum“

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra.
Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra. Mynd/Pjetur
„Þessar gömlu nýlenduþjóðir eru farnar að haga sér með ólikindum, það er ekki nóg fyrir þær að íslenska ríkið sé líklega reiðubúið að taka á sig þessar himinháu skuldbindingar vegna Icesave innstæðna, heldur vilja þær líka hagnast á okkur með himinháum vöxtum. Hollendingar lærðu þetta í Indónesíu og Bretar hafa mergsogið sínar gömlu nýlendur í gegnum tíðina og vilja gera það sama við okkur," sagði Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, í samtali við Vísi.

Hann segist ekki sáttur við þau samningsdrög sem ríkisstjórnin hyggst leggja fyrir þingið og segir þau ekki hafa verið lögð fram með sínu samþykki.

„Þessi mál er ég að skoða niður í kjölin og það er skylda hvers einasta þingmanns og kunnáttumanns í þjóðfélaginu að kynna sér þessi mál í þaula. Þingmenn eiga ekki að leggjast í skotgrafir heldur grafa sig upp úr hjólförunum og taka afstöðu í þessu máli, hvort sem þeir sitja hjá eða ekki," segir Ögmundur sem telur að þeir þingmenn sem ákveði að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna taki líka ákveðna afstöðu.

Ögmundur segist ekki vera búinn að gera upp hug sinn í þessu máli og sé ennfremur ekki búinn að útiloka neinn kost. Hann segir að það sé afar mikilvægt að þingmenn skipti sér ekki í ákveðna flokka, þ.e. stjórn og stjórnarandstöðu, í þessu máli heldur taki persónulega afstöðu til þessa gríðarlega mikilvæga máls.

„Við höfum einfaldlega ekki efni á því að skiptast í einhverja flokka eftir ákveðnum stundarhagsmunum," sagði Ögmundur.

Aðspurður um hljómgrunn í þingflokki Vinstri Grænna sagði Ögmundur að þeir þingmenn sem hafi verið andstæðir samningnum hafi fyrivara á sínum málflutningi.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×