Innlent

360 milljónir af ríkisfé til KSÍ

Knattspyrnusambandið fékk tæpar 200 milljónir í byggingu stúkunnar á Laugardalsvelli.
Knattspyrnusambandið fékk tæpar 200 milljónir í byggingu stúkunnar á Laugardalsvelli.

Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) hefur á síðastliðnum fimm árum fengið 360 milljónir króna úr ríkissjóði. Hafa peningarnir ýmist runnið í gegnum Íþrótta- og Ólympíusambandið (ÍSÍ) eða beint til knattspyrnusambandsins til afmarkaðra verkefna.

Þetta kemur fram í svari mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur hjá Samfylkingunni.

Á síðustu fimm árum hefur ÍSÍ fengið samtals tæpan milljarð króna af ríkisfé. Af þeirri fjárhæð voru 200 milljónir ætlaðar til framlaga til sérsambanda. KSÍ fékk rúmar 10 milljónir af þeim. Framlög til Afrekssjóðs ÍSÍ námu 145 milljónum. Hlutdeild KSÍ í þeim var 23 milljónir á þessum fimm árum.

Bróðurpartur ríkisframlaga til KSÍ hefur verið til afmarkaðra verkefna. Á tímabilinu 2005-2009 fékk sambandið tæpar 200 milljónir vegna stúkunnar á Laugardalsvelli, 100 milljónir vegna sparkvalla sem KSÍ setti upp víða um land í samstarfi við sveitarfélög og fyrirtæki, 27 milljónir hafa runnið til Mannvirkjasjóðs KSÍ og á síðasta ári styrkti ríkið sambandið um tvær milljónir króna vegna kvennalandsliðsins.

Í svari ráðherra kemur jafnframt fram að reiknað sé með að KSÍ fái 3,4 milljónir af 145,5 milljóna framlagi ríkisins til ÍSÍ á næsta ári.

Í svarinu segir enn fremur að KSÍ hafi nokkra sérstöðu meðal sérsambanda ÍSÍ með tilliti til umfangs starfseminnar. Iðkendur séu 19.200 manns. - bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×