Innlent

Vill að forsetinn skrifi undir sem fyrst

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vilhjálmur Egilsson segir mikilvægt að klára Icesave málið sem fyrst. Mynd/ Vilhelm.
Vilhjálmur Egilsson segir mikilvægt að klára Icesave málið sem fyrst. Mynd/ Vilhelm.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, telur að forseti Íslands þurfi að taka ákvörðun um Icesave lögin sem fyrst. Hann telur þó litlu máli skipta hvort hann skrifi undir í dag eða á morgun.

„Það er bara spurning hvaða skilaboð er verið að senda. Einn dagur til eða frá, ég held að það sé ekki afdrifaríkt. Það er niðurstaðan sem skiptir mestu máli," segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur segir þó að biðin megi ekki vera löng. „Okkar afstaða hefur verið sú að það þurfi að klára þetta mál sem fyrst og snúa sér að öðru," segir Vilhjálmur.

Hann segist vera þeirrar skoðunar að forsetinn eigi að skrifa undir. „Þetta er mál sem Alþingi er búið að samþykkja og ég hef ekki talið að forsetinn ætti að vera að grípa fram fyrir hendurnar á Alþingi. Hvorki í þessu máli né öðru," segir Vilhjálmur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×