Vitnum í mansalsmálinu á Suðurnesjum er talin stafa veruleg hætta af fimm karlmönnum sem sitja inni vegna málsins, að því er fram kemur í kröfu ríkissaksóknara yfir framlengingu á gæsluvarðhaldi yfir þeim. Ríkissaksóknari vísar til hættumats greiningadeildar Ríkislögreglustjóra hvað þetta varðar.
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þess efnis að mennirnir fimm, allir litháískir, skuli sæta gæsluvarðhaldi til 26. janúar. Þeir hafa verið ákærðir fyrir mansal gagnvart nítján ára litháískri stúlku. Þá eru sumir úr hópnum ákærðir fyrir hylmingu, líkamsárásir, hótanir og kynferðisbrot.
Mennirnir hafa allir setið í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins frá 14. október. Málið sé mjög umfangsmikið og hafi rannsókn þess teygt anga sína víða. Fyrir liggi rökstuddur grunur um að þeir tengist allir glæpasamtökum í Litháen, en þeir séu ríkisborgarar þar í landi.
Þá sé vísað til þess að mennirnir séu erlendir ríkisborgarar og hætta þyki vera á því að þeir muni reyna að komast úr landi eða leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málssókn.- jss