Viðskipti innlent

Hópar sem berjast gegn fátækt styðja Íslendinga

Breskir og hollenskir hópar sem berjast gegn fátækt í vanþróuðu löndunum styðja málstað Íslendinga í Icesave deilunni. Vilja þeir að málið verði leyst með sáttagerð þar sem Sameinuðu þjóðirnar eða hinn varanlegi gerðardómur í Haag væri í hlutverki sáttasemjara.

 

Þetta kemur fram á vefsíðunni euobserver sem segir þetta nokkuð óvenjulega þróun í málinu. Í Bretlandi er hér um að ræða Jubilee Debt Campaign, góðgerðarsamtök sem vinna að því að fá skuldir vanþróuðu landanna felldar niður. Í Hollandi er um að ræða Both Ends sem vinnur að svipum markmiðum.

 

Fram kemur á vefsíðunni að báðir hóparnir hafi ásakað stjórnvöld í London og Haag að setja Ísland í sömu stöðu og margar þjóðir í Afríku sem hafa neyðst til að draga úr velferðarþjónustu sinni til að standa skil á risavöxnum skuldum við lánadrottna.

 

Jubilee Debt Campaign hefur fagnað ákvörðun forseta Íslands og segja að forsetinn hafi tekið rétta ákvörðun. Skuldug ríki eigi rétt á að mótmæla því þegar réttindi kröfuhafa blóðmjólka þau.

 

Báðir hóparnir eru á þeirri skoðun að bresk og hollensk stjórnvöld séu meðábyrg fyrir að hafa ekki sinnt eftirliti með Icesave eins og öðrum bönkum. „Í staðinn hafa þau ákveðið að láta almenning á Íslandi einan bera ábyrgðina fyrir mistök bankamanna," segir í yfirlýsingu um málið.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×